Fréttir

Fyrrum starfsmenn heiðraðir

Eins og venja er á starfsmannakvöldum Grundarheimilanna eru fyrrum starfsmenn heiðraðir. Þessi mynd var tekin af fyrrverandi starfsfólki Grundar þegar Gísli Páll Pálsson þakkaði þeim vel unnin störf og færði þeim blómvönd sem þakklætisvott.

Viðurkenningar veittar á starfsmannakvöldi

Nýlega var haldið starfsmannakvöld í Ási og eins og venja er veittar þar bæði starfsaldursviðurkenningar og þeir starfsmenn sem hættir eru störfum heiðraðir. Það er áralöng hefð fyrir hvorutveggja og því að hittast að kvöldi til borða saman góðan mat og spila svo í lokin bingó þar sem veglegir vinningar eru í boði.

Ásbyrgi og Bæjarás með bestu hrekkjavökuskreytingarnar

Í dag vour veitt verðlaun fyrir hrekkjavökuskreytingar í Ási.

A-1 með flottustu skreytingarnar

Nú er búið að veita verðlaun fyrir flottustu skreytingarnar á hrekkjavöku hér á Grund.

Kæru aðstandendur Grundar

Veiran minnir á sig þessa dagana og viljum við því skerpa aðeins á reglum hjá okkur. Allir gestir eru beðnir um: 1. Að spritta sig við komu í hús 2. að bera grímu á leið inn og útúr húsi 3. að dvelja eingöngu á herbergi heimilismanns á meðan á heimsókn stendur 4. að staldra ekki við á göngum og tala við starfsfólk heldur hringja í okkur 5. að dvelja ekki í sameiginlegum rýmum Við biðjum gesti að koma ekki í heimsókn ef þeir: Eru í sóttkví eða smitgát. Eru í einangrun (einnig meðan beðið er niðurstöðu úr sýnatöku). Hafa verið í einangrun vegna COVID-19 smits og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift. Eru með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang). Hafa dvalið erlendis undanfarna daga og eru ekki komnir með neikvæða niðurstöðu úr skimun eftir komuna til landsins. Þetta á við um bólusetta gesti, óbólusettir þurfa að gangast undir tvöfalda skimun og sóttkví einsog reglur á landamærum segja til um. Með kærri þökk fyrir skilningsríkt og ánægjulegt samstarf😊 Mússa

Laða fram blik í augum

Í síðustu viku tók til starfa nýr Lífsneistahópur í Ási og í þeim hópi eru eingöngu herramenn. Fyrsti fundurinn lofar svo sannarlega góðu. Markmið hugmyndafræðinnar er að endurvekja lífsneistann hjá fólki með heilabilun; laða fram blikið í augunum, brosið, ánægjuna, gleðina, sönginn, dansinn, snertinguna og njóta samverunnar.

Draugagangur í Mörk

Þetta er það sem blasir við þegar fólk kemur í anddyri Markar í dag. Fatnaðurinn í Boggubúð meira að segja með drungalegu ívafi

Afmælis- og foreldrakaffi á Grund

Í síðustu viku var haldið afmælis- og foreldrakaffi á Grund. Heimilið fagnaði 99 ára afmæli sínu þann 29. október síðastliðinn en einnig hefur svo áratugum skiptir verið haldið um svipað leyti og nú samtímis afmælinu svokallað foreldrakaffi. Hefðin á á bakvið það á sér langa sögu. Grund var stofnuð með almennum samskotum sumarið 1922 og í byrjun september það ár var Grund keypt sem var steinhús við Kaplaskjólsveg. Húsið varð fljótt alltof lítið því þörfin á húsnæði fyrir aldraða var brýn. Framtíðarsýn stjórnar Grundar var að ráðast í byggingu stærra heimilis. Sveinn Jónsson kaupmaður í Reykjavík, oft nefndur Sveinn í Völundi, kom á fund stjórnar Grundar þann 10. desember árið 1924 og tilkynnti að hann og systkini hans vildu gefa þúsund krónur í húsbyggingarsjóð heimilisins til minningar um foreldra þeirra Jón Helgason og Guðrúnu Sveinsdóttur frá Steinum undir Eyjafjöllum. Þetta var myndarleg upphæð á þessum tíma og eina skilyrðið sem fylgdi gjöfinni var að jafnan skyldi á heimilinu haldið upp á brúðkaupsdag þeirra hjóna 26. október ár hvert. Þaðan kemur semsagt nafnið foreldrakaffi og þessi skemmtilega hefð sem við enn í dag höldum á lofti. Systkinin komu þennan dag á hverju ári á heimilið eftir þetta, meðan þeim entist líf og heilsa og gáfu þá um leið heimilinu meira en afmælisveislan kostaði hverju sinni.

Fann upp orðið hrekkjavaka

Ragna Ragnars þýðandi og túlkur er heimiliskona í Mörk. Hún var í Frakklandi og lærði ýmsar hliðar á málinu svo sem þýðingar og lauk þar prófi frá Sorbonne háskóla. Það er skemmtilegt að segja frá því að hún er sú sem kom með íslenska nafnið yfir halloween eða hrekkjavöku. „Ég þýddi í fjöldamörg ár bíómyndir fyrir sjónvarpið og þar var þetta orð, halloween, ítrekað að koma fyrir og mér fannst bara að ég þyrfti að finna eitthvað íslenskt orð sem ætti við. Ég hugsaði málið um stund og þegar ég var komin með orðið hrekkjavaka hringdi ég í vin minn sem var prófessor við íslenskudeild háskólans og spurði hvernig honum litist á. Hann sagði að hrekkjavaka væri fínt orð og þá var farið að nota það í kjölfarið.“

Skreytt fyrir hrekkjavöku

Maður lærir svo lengi sem maður lifir á vel við hérna því eflaust hafa fæstir heimilismenn alist upp við hrekkjavöku en nutu þess virkilega að taka þátt í að skreyta hér á Grund. Það er mikil stemning í kringum hrekkjavöku á heimilinu og keppni í gangi þar sem verðlaun verða veitt fyrir best skreytta graskerið og skreytingar. Þessar myndir eru teknar í vesturhúsinu þar sem starfsfólk og heimilifólk hjálpaðist að við að skreyta og á meðan var saga hrekkjavöku lesin upp. Þess má geta að graskerið sem myndin er af er á þriðju hæð í vesturhúsi Grundar og heimiliskonan Klara gaf því nafnið Elegant.