Markmiðið að safna milljón fyrir heimilið mitt í Mörk

„Erfiðust var einveran því ég er svo mikil félagsvera“, segir Sigfríður Birna Sigmarsdóttir félags- og sjúkraliði í Mörk sem í vor hjólaði á rafhjóli 744 kílómetra á ellefu dögum, frá Roncesvalles til Santiago de Compostela á Spáni. „Við ætluðum upphaflega þrjú saman en hin hættu við. Það runnu á mig tvær grímur en ég varð að halda áfram því ég var búin að heita á heimilisfólkið mitt í Mörk og gat ekki farið að svíkja það“, segir hún.
Byrjaði sex á morgnana
Sigfríður sem alltaf er kölluð Siffa fékk þriggja mánaða frí frá vinnu bæði í Mörk og á Vogi þar sem hún starfar líka og svo hélt hún af stað í ferðlag. „Ég hafði stefnt að því að fara í svona langt ferðlag. Ég heimsótti vini og ættingja bæði fyrir og eftir hjólaferðina en ég æfði mig ekkert svo orð sé á gerandi fyrir sjálfa hjólaferðina. Það geta allir hjólað þessa leið þó hún sé svolítið hæðótt, sérstaklega ef þeir eru á rafhjóli og fá þannig aðstoð þegar þreytan er farin að segja til sín.“ Siffa segist hafa byrjað klukkan sex á morgnana að hjóla og var að hádegi. Þá tók hún sér hvíld og svo síðdegis hjólaði hún áfram.
Núllstilling
„Það reyndist mér erfitt að vera ein allan sólarhringinn eins og mig grunaði“, segir Siffa en bætir svo við „Ég hafði hinsvegar rosalega gott af því að vera svona ein með sjálfri mér. Ég núllstillti mig sem var frábært. Og ég var ein allan þennan tíma fyrir utan það að ég fór út að borða með ungum reiðhjólaköppum sem fannst frekar kúl að hitta þessa ömmu sem var ein að hjóla. Já þetta var þannig, ég kveið mest fyrir einverunni en svo þegar upp var staðið var það í raun það besta sem gat gerst og ég þurfti á að halda..“
Eins og ein stór fjölskylda
Dyggustu stuðningsmenn Siffu eru og hafa verið heimilismennirnir í Glaumbæ í Mörk. Þar hefur Siffa unnið síðastliðin níu ár og heimilið Glaumbær er hennar annað heimili eins og hún orðar það svo fallega sjálf. „Það er svo stórkostlegt að vinna á annarri hæðinni í Mörk. Andrúmsloftið er svo einstakt og hvetjandi. Ef það væri ekki fyrir Mörk væri ég ekki búin að afkasta því sem ég hef verið að gera undanfarin ár. Ég dreif með mig fleirum hér á hæðinni í félagsliðanám og svo ákvað ég í framhaldinu að fara í sjúkraliðanám eftir ómældan stuðning frá fólkinu hér í Mörk. Núna var ég ein af fjórtán se komst inn í nám í nudd í Fjölbraut í Ármúla. Við erum eins og ein stór fjölskylda hér á hæðinni og fólkið mitt í Glaumbæ er mér kært.
Nota peninga til að fara úr húsi
Mig langaði því að safna áheitum fyrir þetta litla heimili þar sem búa tíu mann, sumir á mínum aldri. Peningana ætlum við svo að nota til að fara með heimilisfólkið úr húsi. Sumum finnst gaman að fara á tónleika og öðrum í leiikhús eða bíó. Við finnum út hver og einn vill gera og svo er alltaf stemning fyrir því að panta mat á föstudagskvöldum. Nú getum við gert það. Starfsfólkið getur svo farið með viðkomandi, það fær miða á viðburðinn en gefur vinnu sína. Við erum öll til í það. “
Langar að ná markmiðinu
„Ég geri mér grein fyrir því að rúmar átta hundrað þúsund krónur eru fljótar að fara“, segir Siffa en það má samt gera heilmargt fyrir þá upphæð. Og mig dreymir um að ná markmiðinu. Safna milljón. Það söfnuðust 865.000 kr. og drjúgan hluta af því eiga aðstandendur heimilismanna heiðurinn af, sem persónulega lögðu í söfnunina og fengu aðra í lið með sér að styrkja. Til dæmis fékk einn aðstandandinn Ölgerðina til að styrkja mig en það er eina fyrirtækið sem hét á mig. Heimilisfólkið fylgdist svo vel með og við spjölluðum á facetime. Mér var vel tekið eftir þriggja mánaða fríið og ég var farin að sakna fólksins míns svo mikið.“
Mömmu dreymir um að ganga Jakobsveginn
Þegar Siffa er spurð hvaðan hugmyndin sé komin að fara og hjóla Jakobsveginn segir hún: „Mömmu hefur lengi dreymt um þetta. Hún er 78 ára en í góðu formi og við tölum stundum um að fara saman. Hún þarf að komast 100 kílómetrana til að fá syndaaflausnina. Kannski förum við á næsta ári. Svo er stefnan að ganga þessa leið aftur með vinkonum 2024 og þá með fararstjórn. Svo þetta var bara fyrsta ferðin og í þeirri næstu þá safna ég örugglega áheitum aftur fyrir Glaumbæ !
Viljir þú styrkja Siffu og hennar markmið fyrir Glaumbæ og fólkið hennar þar þá eru reikningsupplýsingar hér
Taktu auka skrefið með okkur
0123-15-071992 060972-5679.